Mikið vill meira

Húnavökuhlaupsæfingar eru ekki hafnar af neinni alvöru, nokkrar tilraunir gerðar en árangur minni en enginn. DÆS

Þetta er bara sagan endalausa að finna helvítis jafnvægi á milli vinnu, heimilisverka og æfinga. Ef ég hætti í vinnunni þá gæti ég æft fyrir helvítis hlaupið en kona er víst enn svolítið að deyja úr hamingju að hafa komist aftur út á vinnumarkaðinn.

Ég er þakklát fyrir að vera komin á þann stað sem ég er núna en mikið vill meira! Mig langar að komast á næsta stig og verða vanþakklátur fáviti sem pælir ekkert í því hvað það eru mikil forréttindi að geta hreyft sig án þess að finna til.

Mikið vill meira

Rekur tíðum þó róið sé öllum árum

er akkúrat ég þessa stundina eða öllu heldur allt síðasta ár, jafnvel síðustu tvö ár. Framfarir hafa vissulega átt sér stað og ég er bæði farin að vinna og sveifla tuskunni í gríð og erg heima fyrir. Ég er meira að segja búin að gerast svo fræg að komast á djamm og vera úti alla nóttina.

Vissir þættir ganga þó hægt og fyrir hvert skref fram á við eru þrjúþúsund aftur á bak.

Í mörg ár hef ég dreymt um að taka þátt í hinu víðfræga Húnavökuhlaupi, hlaupa þar 5 km eins og vindurinn. Í ár, í fyrsta sinn er þetta ekki bara fjarlægur draumur. Gigtin lætur alltaf meir og meir undan og ég tel að ef ég byrja strax að æfa mig fyrir hlaupið sem er í júlí 2017 þá gæti kraftaverk gerst og ég myndi hlaupa eins og vindurinn. Ég er reyndar í öllu mínu gigtarfári einstaklega óraunhæf með allt. Ég, til að mynda gat ekki gengið í 10 mínútur utandyra þegar ég setti mér markmið að hlaupa í helvítis hlaupinu. Ég er ekki góð í raunhæfum væntingum.

Húnavökuhlaupsæfingar eru engu að síðu hafnar. Aldrei þessu vant fór ég rólega af stað en rólega á gigtarmáli er ekki það sama og fyrir ykkur venjulega fólkið. Þannig að þó æfingin væri farin á hraða snigilsins og eytt litlum tíma þá var það of mikið. já, dömur mínar og herrar,  þrátt fyrir að hafa bara hlaupið í eina pínulitla mínútu á hraða snigilsins. Þá var þetta of mikið og ég vaknaði daginn eftir tognuð á ökkla og gat með naumindum stundað vinnu vikuna á eftir.

Ég er farin aftur af stað í ræktina en ég ætla að láta hlaupabrettin bíða ögn lengur og taka 30 sekúndur næst. (eða jafnvel bara 15 sekúndur).

Rekur tíðum þó róið sé öllum árum

Gigt

Ég er með ákveðnar hugmyndir um hvernig ég vil skrásetja leiðina til bata en á erfitt með að finna fókus punkt. Fyrst og fremst er ég feimin, hvað ef mér mistekst og næ engum árangri. Ég er ekki alveg viss um að ég treysti mér í að setja gigtarbaráttuna á netið en sóragigtin hefur fylgt mér í meira en 10 ár.  Það væri auðvitað mjög gaman að ná að setja saman blogg sem myndi gagnast öðrum gigtarsjúklingum.

Processed with VSCO with m5 preset

Ég kynntist konu sem nær að halda sjúkdómi sínum niðri með mataræði sínu og það hefur fyllt mig von um að það sé hægt að vinna fullkomnlega bug á sóragigtinni. .

Gigt

Vinna + gigt = sönn pína og kvöl

Ég minnkaði við mig vinnu í vetur í þeirri von að ná meira jafnvægi. Síðasti vetur var vægast sagt erfiður, 100% vinna ásamt því að sjá um heimili og litla snúllu var ekkert að ganga sérstaklega vel. Ég hafði rétt orku til að sinna vinnunni og var þreytt og illt allan veturinn ásamt því að ég hafði engan tíma né orku til að klára endurhæfinguna.

IMG_6780.JPG

 

Það eru þrjár vikur síðan ég byrjaði eftir sumarfrí og ég ligg upp í rúmi og fæturnir loga af sársauka. Nú reynir á að finna tíma fyrir endurhæfingu, ég ætla að setja endurhæfingu í forgang í þeirri von að ná meiri lífsgæðum og geta átt betri tíma með vinum og fjölskyldu. Auk þess væri ekki verra ef sársaukinn færi aðeins niður

Vinna + gigt = sönn pína og kvöl

að verða betri…

Um næstu áramót verða liðin tæp þrjú ár síðan ég byrjaði á lyfi sem vann gegn sóragigtinni. Lyfið er hálfgert kraftaverk lyf, það finnst mér alla veganna. Árangurinn er framar björtustu vonum og raunhæft að lifa þokkalegu lífi. Græðgin lætur ekki að sér hæða og kröfurnar aukast hjá mér. Nú vil ég geta gengið á gangstéttum, farið á búðarölt, eldað kvöldmat alla daga og hlaupið á ný.

Æfingar fyrir Húnavökuhlaup 2017 hefjast í september, ég stefni á fimm kílómetra.

bloglovin

að verða betri…

Svefnleysi

Ég á erfitt með svefn.

Áður en ég byrjaði á Humiru þá voru kvöldin kvalræði. Versta tilfinning í öllum heiminum er þegar maður er orðinn þreyttur en nær ekki að festa svefn vegna verkja. Það er ekkert jafn slæmt og ég skil af hverju svefnleysi er notað sem pyntingaraðferð.

Nú, rúmlega ári eftir að ég byrjaði á Humiru hefur allt skánað, líka kvöldverkirnir. Vöðvar, sinar og liðir virðast þó eiga erfitt með að aðlagast breyttu lífi. Þegar ég leggst upp í rúm þá spennist allur líkaminn upp, og ég finn hvernig líkaminn undirbýr sig fyrir komandi átök. Átök sem nú eru í mýflugumynd og engin ástæða til að kvíða kvöldverkjunum lengur. Verkirnir koma en eru mildir og viðráðanlegir. Mér líður eins og líkaminn haldi niðri í sér andanum og þori ekki að treysta nýja veruleikanum. Síðustu ár hafa verið erfið og hví ætti líkami sem hefur kvalist svo lengi að treysta því að þetta endist. Er ekki betra að vera viðbúin því sem koma skal.

Svefnleysi

5 mínútur – 5 kíló – 5 ár

Fimm mínútur – 5 kíló – fimm ár

Ég get hlaupið í fimm mínútur á hlaupabretti og gengið það sem eftir lifir dags.

Allt í einu er ég farin að hlaupa í fimm mínútur, búin að missa fimm kíló og vera hundveik af gigtinni í 5 ár. Það er súrrelísk að þjást af gigt, verkirnir sem plaga mig á hverjum degi eru undarlegir. Ég stari stundum á fæturnar á mér, agndofa yfir kvölunum sem þeir valda mér á hverjum degi. Hvernig getur líkaminn svikið mann svo heiftarlega. Hvernig er hægt að taka verkina og endulausu kvalirnar alvarlega.

5 mínútur – 5 kíló – 5 ár

Hjálpartæki kripplinga

safakúrGóðum árangri í meinlætalíferni var fagnað með kökuáti! Vel gert, Erla!

Lífið heldur áfram og ég keypti nokkra safa á Gló til að hjálpa sluggsanum af stað aftur.

Gafst einnig upp og keyrði upp í Eirberg og keypti bæði dósaopnara fyrir kripplaða og fingrahlíf. Iðjuþjálfinn í saumaklúbbnum hefur í mörg ár hvatt mig til að kaupa viðeigandi hjálpartæki en ég hef hingað til þrjóskast við. En ekki lengur nú verður heimilið fyllt með hjálpartækjum (engar dónahugsanir).

Hjálpartæki kripplinga

Gigtarverkir

Batinn silast áfram á hraða snigilins. Í fyrsta skiptið í langan tíma er ég léttari í enda mánaðar. Það var ánægjuleg tilbreyting. Ég náði einnig merkum áfanga í dag, upphitunin varði í 20 mínútur. Tilefni til þess að draga fram dansskóna, setja á sig varalit og brosa framan í heiminn. Ég grét bara.

Gíraffi

Ég hef átt mjög erfitt með gang síðustu daga, öll dagleg verk eru erfið og krefjast átaks. Þrátt fyrir árangur þá er ég svo grátlega langt frá því að vera heilbrigð og geta lifað eðlilegu lífi. Ég er svo langt frá því að vera í kjörþyngd, langt frá því að geta hlaupið og langt frá því að geta innt dagleg störf auðveldlega af hendi.

 

Ég er engu að síður að verða betri. Það er bara erfitt að vera ekki bitur yfir öllum þeim tíma sem fer í veikindin og öllum þeim tækifærum sem fara forgörðum því ég get ekki hreyft mig út af bannsettu gigtinni.

Gigtarverkir