Jóga og gigt

stig lindberg

Þriðji í megrun:

gengur vel

mig langar að geta farið aftur að vinna

ég er ekki búin að borða kók né súkkulaðistykki í ALLAN dag (mér líður eins og meistara)

jóga í kvöld

 

Auglýsingar
Jóga og gigt

Að lifa með gigt í farteskinu

Fólk á í vandræðum með sjálft sig og lífið undir venjulegum kringumstæðum, hvað þá þegar kona þarf að burðast með gigt hvert sem hún fer. Á Íslandi er mikið lagt upp úr því að fólk sé jákvætt, æðrulaust og takist á við veikindin með bros á vör. Hugsanlega eru bara mínir innri fordómar að tala en ég hef furðu oft fengið ráðleggingar um mikilvægi þess að vera jákvæð.

Líf gigtarsjúklingar er einn helvítis táradalur.

Í dag fór ég í litla verslunarferð, tvær fatabúðir og ein matvörubúð. Ég stoppaði lengi í fatabúðunum en stutt í matvörubúðinni. Ég þurfti svo að ganga heim c.a. 1,2 km. Þegar kaupæðisvíman var runnin af mér, c.a. 50 m. frá verslunarmiðstöðinni. Loguðu fæturnir á mér af sársauka, hvert skref heim var óbærilegt og mig langaði til að henda mér í jörðina og láta einhvern bera mig heim. Gönguferðin var öskrandi áminning um að ég þurfi að skafa af mér aukakílóin. Af einhverjum ástæðum fattaði ég ekki að taka bara leigubíl heim fyrr en núna þremur klukkutímum seinna.

Akkúrat núna þá vorkenni ég sjálfri mér svo ótrúlega mikið fyrir að vera veik. Ég verð svo leið og fúl og öfundsjúk út í alla sem geta bara léttilega gengið. Þurfa aldrei að reikna út „ef ég geng svona mikið núna, þá get ég það ekki á eftir, best að taka strætó eða sleppa þessu o.s.frv.“

*Erla Guðrún*

Að lifa með gigt í farteskinu

Kverkaskítur

Ég (Erla Guðrún) er búin að vera hálfveik frá áramótum, endalaus hálsbólga, kvef og nefrennsli. Læknirinn minn telur að nýja lyfinu sé um að kenna. Í fyrsta skipti síðan ég veiktist og byrjaði að taka gigtarlyf þá fæ ég aukaverkanir. Fyrir utan að vera veik í þrjá mánuði þá er bakið á mér eins og á 14 ára unglingi. Þegar kona er komin á fertugsaldurinn þá á hún að vera laus við bólur á bakinu. Við erum ekki að tala um eina eða tvær sakleysislegar bólur. Nei, nei, 23. herdeildin er öll mætt. Ég er öll út í sérkennilegum útbrotum í andlitinu, sóríasinn rauk upp og í þokkabót þyngdist ég um 10 kg. Eitthvað sem ég mátti ekki við verandi 10kg of þung fyrir. Eftir að hafa eytt ómældum tíma í að barma mér sem breytti engu þá greip ég til örþrifaráða. Ég byrjaði á ofurgrænmetisfæði, ég hef aldrei á ævinni borðað jafn mikið magn af grænmeti og síðustu viku.  Sem dæmi þá borðaði ég á einum og sama deginum: tvö grænkálshöfuð, heilan selleríshaus, poka af gulrótum, poka af spínati og sitthvað fleira.

grænmeti

Ég er svo heppinn að eiga vinkonu sem er mjög vel að sér í heilsufræðum og hún féllst á að hjálpa mér í gegnum vikuna, sem betur fer. Án gríns, ég hefði ekki komist í gegnum fyrsta daginn án hennar hjálpar. Vikan leið og þetta gekk svona upp og ofan. Suma daga var ég hrikalega svöng og máttlaus, aðra daga var ég uppfull af orku og gleði. Það var mikil hjálp í því að þurfa að standa skil á matarræðinu í dagslok. Ég sendi henni alltaf línu að kvöldi um hverja örðu sem fór inn fyrir mínar varir.  Ég vildi ekki þurfa að skrifa: „svo tapaði ég mér og fékk mér þrjár kökusneiðar, 10 brauðsneiðar og 5 smákökur (kökur eru sko minn helsti veikleiki) en að öðru leyti gekk dagurinn vel!“ Ég reyndi líka að lesa mér til um ofurgrænmetisfæði til að halda mér við efnið. Einn daginn var ég á mörkunum að eyða öllum af instagraminu mínu, var ekki að meika að sjá allar girnulegu réttina.

safar

Ég stóð mig með glans í ofurgrænmetisvikunni en ég féll með 4,5 í vikunni á eftir. Ég klikkaði á að hugsa almennilega fyrir því hvað ætti að taka við. Tveimur dögum seinna vorum við í partýi, ég var ekki með nesti og borðaði bara eins og venjulegt fólk, brauð, kökur, pönnukökur. Um kvöldið, í fyrsta skiptið í langan tíma þá gat ég ekki sofið fyrir verkjum. Daginn eftir átti ég tíma hjá heimilislækninum mínum, sem betur fer. Hún var nú ekki á því að það væru einhver tengsl þarna á milli, eða öllu heldur, hún vildi fara varlega í að draga miklar ályktanir af einu tilviki. Hún lagði til að ég héldi mig aftur frá hveiti og sykri í eina viku og prófaði aftur. Þ.e.a.s. ekkert hveiti og sykur í viku, borða síðan eitthvað með hveiti og sykri og sjá hvort viðbrögðin verða svipuð. Tilraunin leggst mjög vel í mig, sérstaklega vegna þess að  við verðum á ferðalagi þegar það er kominn tími til að borða aftur hveiti og sykur. Tímasetningin gæti ekki verið betri. Það er sko hægara sagt en gert að borða hollt, keyrandi um Bandaríkin.

Kverkaskítur

Sérsaumaðar skyrtur

Ég vildi að skyrta.is eða samskonar þjónusta hefði verið til staðar þegar við giftum okkur. Við lentum í smá vandræðum að finna skyrta á Finn sem pokaði ekki á honum. Föttuðum ekki fyrr en það var orðið of seint að leita til klæðskera.

a9168742396bc0965f10031baaafa585

Það er einnig hægt að fá skyrtur fyrir konur og svo velur maður bara snið, lit, tölur o.s.frv. Verst að ég á gífurlega erfitt með að velja á milli margra valmöguleika, ég veit ekki hvernig ég ætti að velja eitt umfram annað.

skyrta 2p.s. takk kærlega fyrir viðbrögðin við veikindapistlinum mínum, ég volaði ögn er ég las kveðjurnar frá vinum og vandamönnum. Ég var efins hvort það væri rétt af mér að segja sögu mína því í gegnum tíðina þá hef ég reynt eftir fremsta megni að halda andlitinu og kvarta ekki mikið opinberlega yfir gigtinni. Mér líður mjög vel að hafa lýst mínum veruleika. Mér finnst gott að fólk, vinir og vandamenn viti  að þetta er hunderfitt og sársaukafullt.  Ég á erfitt að sætta mig við allar þær takmarkanir sem fylgja sóragigtinni og það er ómetanlegt að hafa stuðning svo margra.

Sérsaumaðar skyrtur

Ég er veik

Ég er veik, miklu veikari en ég læt uppi í daglegu tali við vini og vandamenn. Þrátt fyrir krónískan sjúkdóm sem ég hef burðast með í að verða 10 ár þá hef ég forðast að segja eftirfarandi: Ég, Erla, er fáránlega illa haldin af sóragigt og hef verið það í hartnær 10 ár og líklega verð ég aldrei frísk.

Þrátt fyrir að vera veik þá er ég miklu betri en ég var. Vandamálið er að þetta „miklu betra“ er frekar glatað. Ég er ekki með atvinnuleyfi hér og er því heima, en jafnvel þó ég hefði það þá gæti ég ekki unnið. Þrátt fyrir að vera heima þá þarf dóttir okkar að vera á leikskóla því ég get ekki sinnt henni eftir að hún fór að ganga og sofa minna á daginn. Ég get ekki eldað kvöldmat, ég hef varla eldað kvöldmat eftir að ég átti Katrínu Önnu. Eldamennska krefst yfirleitt af manni að standa yfir pottunum og/eða skera niður grænmeti, ég get hvorugt. Ég get ekki skrifað, ég get ekki gengið, ég get ekki staðið, ég get ekki setið. Þrátt fyrir allt þá er ég miklu betri en ég var.

Ég er ekki jafn kvalin líkt og ég var, mér er enn illt en verkirnir eru komnir niður um eitt þrep. Ég skipti sársauka í þrjú þrep: 1) Óbærilegir verkir, get ekki sofið, á erfitt með að hugsa. 2) Er illt, tek verkjatöflu. 3) Finn fyrir líkamanum en sársaukinn er mildur og truflar mig næstum ekkert.

Í dag get ég  gengið um íbúðina okkar án mikilla vandræða. Það koma vissulega slæmir dagar inn á milli en ég er t.d. byrjuð að geta gengið aðeins frá.

Í dag get ég farið í búðina án þess að þurfa að leggjast upp í sófa þegar ég kem heim, það er mikill munur.

Ég gæti tínt til fleiri atriði um bata en læt þetta duga í bili.

Í gegnum tíðina hef ég forðast eftir fremsta megni að tala um lífið með gigt. Ég tala um að ég hafi verið illa haldin en að núna er þetta allt saman miklu betra og að ég sé alltaf að verða betri. Það er í sjálfu sér ekkert óeðilegt, það er ansi niðurdrepandi ef ég væri alltaf að tala um hvað mér er illt og gæti ekki hreyft mig. En sannleikurinn er sá að ég hef verið — er — alltaf í hálfgerðri afneitun þegar kemur að þessum veikindum mínum. Fyrstu tvö árin sem ég var veik voru vægast sagt hræðileg, ég get engan veginn lýst þeim ógnarverkjum sem ég var heltekinn af, svo ég tali ekki um hreyfingarleysið. Í þeim aðstæðum þýddi lítið að velta sér upp úr hlutunum því ég þurfti bara að halda áfram til að lifa þetta af. Á þeim tíma gat ég ekki gengið um stúdíóíbúðina mína hvað þá gert aðra hluti.

Í sumar verða komin 10 ár síðan ég veiktist, á níu ára gigtarafmælinu setti ég mér metnaðarfullt markmið: að hlaupa 5 km í Húnahlaupi. Þetta markmið er í takt við draumkenndar hugmyndir mínir um getu mína. Ég get ekki gengið hvað þá hlaupið 5 km. Í vikunni fór ég í gönguferð, gleymdi mér og gekk í 10 mínútur. Ég lá í rúminu í þrjá daga eftir þá þrekraun.

Hver dagur er barátta. Hversdagslegir hlutir sem ég áður leiddi aldrei hugann að eru eins og að glíma við Mount Everest. Hvern dag get ég gert u.þ.b. einn hlut. Ég er með hreyfikvóta og hann er mjög lítill. Satt best að segja þá get ég verið þokkaleg af verkjum ef ég ligg fyrir allan daginn og geri ekki nokkurn skapaðann hlut. Þetta er mjög skrítið líf og í gegnum tíðina þá ég hef látið eins og þetta sé ekki lífið mitt.

Ég er veik

Sunnudagshugleiðingar

ballett

 

Það er draumur minn að verða það góð af gigtinni að geta hlaupið. Ég gerði mjög lítið af því áður en ég veiktist, ég leiddi hugann sjaldan að því og datt sjálfsagt aldrei í hug að sá dagur mundi renna upp að ég myndi þrá fátt jafnheitt eins og að getað hlaupið. Til þess að getað hlaupið þarf svo ótrúlega margt að vera til staðar, allskonar vöðvar og liðir sem þurfa að vinna með líkamanum og þola höggin sem fara í gegnum líkamann þegar fæturnir lenda á jörðinni. Í sumar byrjaði ég að æfa fyrir fimm kílómetra hlaup, hægt og örugglega og í vikunni tók ég mín fyrstu hlaupaskref í mörg ár. Þau voru fá og stóðu yfir í 30 dásamlegar sekúndur. Mér láðist að taka eftir því hversu marga metra ég fór en kannski í næsta skipti. Finnur mun hlaupa aðeins lengur í dag en hann ætlar að reyna við hálfmaraþon. Ég hlakka til þegar við getum hlaupið saman.

Sunnudagshugleiðingar

Sumardagur í Chapel Hill

tréÚtsýnið af pallinum er alveg ágæt. Finni líkar mjög vel innan um öll þessi tré enda uppalinn í Svíaríkinu og veit hvað alvöru tré eru öfugt við mig.

gulrótarsafi

 Meinlætamataræðið er í fullum gangi í Chapel Hill. Ég fjárfesti loks í safapressu og nú þamba ég grænkál, spínat, gulrætur, sellerí líkt og ekkert sé.  Ég er byrjuð að drekka tvo safa á dag og stefni á að ná að drekka um fjóra á dag með því þá ætti ég að ná að borða helling af grænmeti sem vonandi hjálpar til við að halda niðri bólgunum.

sólbað

Fólk kvartar yfir veðrinu, samkvæmt heimamönnum er  víst búið að vera  óvenjukalt  í ágúst og rignarsamt. Þau hafa greinilega aldrei kynnst reykvísku rigningu. Hitinn er reyndar minni heldur en við höfum kynnst í ágúst en það er samt engan veginn kalt á mælikvarða Íslendinga. Ég reyni því að nýta sólina og hitann til að fá 15 mínúta D-vítamín skammtinn.  Sumt af því sem ég er að gera þessa dagana til að ná heilsu aftur er erfitt, vont og leiðinlegt en sólbaðið er eitt af fáum sem er auðvelt að gera.

lyfta

Sumardagur í Chapel Hill

Gigt…

IMG_4482

Á næsta ári verð ég 33 ára sem er í sjálfu sér ekkert stórmál en í kringum afmælið mitt á ég á einnig annað miður skemmtilegt afmæli. Þá verða liðin 10 ár síðan ég byrjaði að finna fyrir beinhimnubólgu, að ég hélt. Samfara því byrjaði ég að fá beinverki og smá verki í liðamótin. „Beinhimnubólgan“ ágerðist eftir því sem leið á sumarið og ég byrjaði að eiga erfitt með gang og verkirnir ágerðust. Í september 2004, tæpum tveimur mánuðum eftir að ég byrjaði að finna fyrir kranleika þá gat ég illa hreyft mig og var orðin sárkvalin.  Ég var greind með sóríasgigt og byrjaði að taka fjöll af lyfjum og verkjapillum til að ná heilsu á nýjan leik. Það tók mjög langan tíma að ná aftur sæmilegri heilsu en árið 2007 var ég orðin þokkaleg. Verkirnir voru hættir að halda fyrir mér vöku og ég gat hreyft mig, næstum eins og venjuleg manneskja en samt ekki alveg.

IMG_3491

Þá kom að því að mig og Finni langaði að fjölga mannkyninu. Til þess að það yrði að veruleika, þurfti ég að hætta á lyfjunum með tilheyrandi verkjum og hreyfingarleysi. Nú er liðið eitt og hálft ár síðan  litla snúllan okkar kom í heiminn og þar af leiðandi eitt og hálft ár síðan ég byrjaði aftur á lyfjunum. Gallinn er að það gengur afskaplega hægt að ná aftur heilsu. Skert hreyfigeta og miklir verkir hafa verið gestkomandi hjá okkur alltof lengi. Á næsta ári verða komin 10 ár af þessu veikindabrasi. Í upphafi þegar ég veiktist þá var ég alltaf staðföst í að þetta væri bara tímabundin. Það er svolítið erfitt að halda í þá trú þegar 10 ára veikinda“afmæli“ nálgast.

ber breyttÉg hef því legið yfir bókum og bloggum síðustu vikur að lesa frásagnir fólks sem hefur náð að halda öllum gigtareinkennum niðri með breyttu mataræði. Síðustu tvær vikur hef ég reynt að sniðganga mat sem er þekktur fyrir að kynda undir gigtareinkennum. Ég hef í gegnum tíðina prófað ýmislegt til að ná heilsu aftur en í þetta skiptið geng ég skrefinu lengra og borða bara kál og gras. Hugsanlega smá ýkur hér en engu að síður þá hef ég síðustu tvær vikur sleppt að neyta allra dýraafurða, látið vera  mjólkurvörur og það sem mér finnst erfiðast sleppt sykri og öllu glúteni. MIg dreymir nefnilega að halda upp á 10 ára gigtarafmælið með að hlaupa 5 km í Húnahlaupinu, allavegana að stefna að því að vera verkjalaus og geta hreyft mig. Því ég vil alls ekki ná þeim árangri að vera veik í 10 ár.

Innskot

Heilsublogg

Vorið getur ekki ákveðið sig hvort það ætli að vera eða ekki. Í janúar var 22 stiga hiti og kirsuberjatréin fóru af stað. Í febrúar hefur hins vegar snjóað og verið ískalt en inn á milli koma hlýir dagar þar sem hitinn fer upp í 15 gráður. Vorin eru yndisleg hér og þegar hitastigið fer hækkandi þá á ég auðveldara með að borða léttari og hollari mat.

hollur morgunmatur

Undanfarna morgna hefur morgunmaturinn minn verið fagur grænn á litinn. Í þessi herlegheit fara pera, kíwi, sellerí og smá af engiferi og síðan maukað í matvinnsluvél.  Ég set einnig 1 tsk af hampfræjum.

Ég reyni síðan að þræla í mig engiferseyðinu hans pabba til að koma í veg fyrir frekari veikindi í vetur. Mér finnst fátt leiðinlegra en hiti, kvef og hósti og ég er tilbúin til að leggja ýmislegt á mig til að forðast flensuna.

engifer

Heilsublogg